Fjögur stig meðvitundar í koppaþjálfun

þann Jun 20, 2025
Barn situr á kopp og dundar sér

Frá „Ég hef ekki hugmynd“ til „Ég þarf að pissa“

Eitt af því mikilvægasta sem við sem foreldrar þurfum að muna í koppaþjálfun er þetta:
Þetta er ekki próf. Þetta er ferli. Og ferli tekur tíma.

Jamie Glowacki (höfundur Oh Crap! Potty Training) lýsir því einstaklega vel hvernig börn fara í gegnum fjögur skýr þroskaskref í meðvitund um eigin líkamsþarfir. Þessi skref hjálpa okkur að sjá hvort barnið sé að færast nær markmiðinu – jafnvel þó slysin séu mörg og framfarir virðast hægar.

💡 Fjögur þroskaskref líkamlegrar meðvitundar:

1. Ég hef ekki hugmynd
Barnið pissar eða kúkar án þess að veita því minnsta gaum. Það er algerlega ómeðvitað – og það er allt í lagi. Þarna eru flest börn áður en þjálfun hefst.

2. Ég pissaði
Barnið áttar sig á því eftir á. Þetta getur verið eins og: „Mamma, ég pissaði!“ eða „Hvað er að gerast..?" – jafnvel þó það standi í polli. Þetta er fyrsta raunverulega meðvitundin, og stórt skref! 

3. Ég er að pissa
Barnið áttar sig á því á meðan það er að gera í sig. Þetta stig gefur tækifæri til að ná því yfir á koppinn í miðri athöfn, sem styrkir tengingu við hvað er að gerast í líkamanum og hvert skipti er lærdómstækifæri... þótt að pissið eða kúkurinn fari að mestu á gólfið. Mundu bara að minna á að pissið eða kúkurinn á að fara í koppinn eða klósettið og láta vita næst.

4. Ég þarf að pissa
Barnið finnur fyrir þörfinni áður en það kemur og getur látið vita. Þetta er markmiðið okkar – en það getur tekið tíma að komast hingað. Þetta er eins og að læra nýja skynjun. 

Við leitumst eftir framförum – ekki fullkomnun

Það er auðvelt að festast í hugsuninni: „Af hverju pissar barnið mitt enn á sig?“
En ef barnið var „algerlega ómeðvitað“ í gær og segir í dag „ég pissaði“ – þá eru það framfarir.

Það er grunnstoð í góðri koppaþjálfun að horfa á þessi stig og fagna litlu skrefunum. Þau eru merki um að barnið sé að læra að tengja saman líkama, skynjun og hegðun – og það er stórkostleg uppgötvun út af fyrir sig.

Hvernig getur þú nýtt þér þessi stig?

  • Þekkja á hvaða stigi barnið þitt er á – og stilla væntingum eftir því.
  • Grípa tækifærin þegar barnið er að segja með orðum eða tjáningu „ég pissaði“ eða „ég er að pissa“ og tengja það við orð: „Já, pissa í klósettið!“
  • Halda ró og stuðningi á öllum stigum – því hvert skref er skref fram á við.


Að lokum...

Barnið þitt er ekki að klúðra neinu. Það er að læra að skynja líkama sinn – og það er stórt og mikilvægt þroskaskref. Mundu, barnið þitt hefur verið í bleyjum frá fæðingu og þekkir ekkert annað. Það getur tekið smá á að læra nýja hegðun og skapa nýjar venjur.
Með því að þekkja þessi fjögur stig geturðu haldið fókus og einblínt á framfarir en ekki mistök. Þetta er ekki línulegt ferli – en þetta er lærdómsríkt og tengjandi, og þú ert að standa þig vel 🧡

*Þessi færsla inniheldur affiliate hlekki. Við fáum þóknun ef þú kaupir í gegnum tenglana – þér að kostnaðarlausu.

Skildu eftir athugasemd