
„Bíddu bara þar til barnið er tilbúið.“
Þetta er líklega algengasta ráðið sem foreldrar fá þegar talið berst að koppaþjálfun. Við viljum auðvitað ekki pressa á börnin okkar og í dag ríkir sú skoðun að það sé ekkert sem heiti „of seint“.
En nýlegar rannsóknir í barnaskurðlækningum segja aðra sögu. Vísindin benda til þess að það sé til ákveðinn „gullinn gluggi“ - oftast á milli 18 og 30 mánaða, þar sem koppaþjálfun er ekki bara auðveldari, heldur betri fyrir líkamlega heilsu barnsins til lengri tíma.
Hér förum við yfir það sem rannsóknir segja um hvernig tímanleg koppaþjálfun getur verndað þvagblöðru, ristil og stuðlað að betri svefni.
Hvað segja nýjustu gögnin?
Það er auðvelt að finna eina rannsókn sem segir eitt og aðra sem segir annað. Þess vegna horfa vísindamenn helst til svokallaðra meta-analysis (safngreiningar). Þær taka saman niðurstöður úr mörgum rannsóknum til að fá heildarmyndina og eru taldar vera sterkustu sönnunargögnin sem við höfum.
Árið 2020 birtist stór safngreining eftir Yang o.fl. í Journal of Pediatric Urology. Niðurstöðurnar voru afgerandi:
Börn sem hófu koppaþjálfun fyrir 24 mánaða aldur voru í marktækt minni hættu á að glíma við þvagblöðruvandamál síðar meir.
Rannsóknin sýndi að það að nýta þennan glugga verndar neðri þvagfærin og stuðlar að heilbrigðari líkamsstarfsemi.
37% minni líkur á næturvætu
Margir foreldrar halda að það að hætta með bleiu á daginn og nóttunni sé tvennt ólíkt. Þótt þroski spili stórt hlutverk, sýndi ofangreind rannsókn (Yang o.fl., 2020) að börn sem byrjuðu snemma (fyrir 2 ára) voru 37% ólíklegri til að glíma við næturvætu (enuresis) seinna á ævinni.
Þetta rímar við eldri rannsóknir (t.d. Chiozza o.fl., 1998) sem sýndu að því fyrr sem barn nær stjórn á daginn, því fyrr styrkjast boðleiðirnar milli heila og þvagblöðru, sem hjálpar barninu að vakna (eða halda í sér) á nóttunni.
Að byrja fyrir 32 mánaða minnkar líkur á þvagleka
Hvað gerist ef við bíðum lengur? Rannsókn Barone o.fl. (2009) sýndi að börn sem hófu koppaþjálfun eftir 32 mánaða aldur voru líklegri til að þróa með sér bráðaþvagleka (urge incontinence) - það er, þegar barnið missir þvag um leið og það finnur fyrir þörfinni.
Ástæðan er talin vera sú að ef barn venst því að hunsa boðin frá þvagblöðrunni of lengi (af því bleian grípur allt), getur þvagblaðran orðið „ofvirk“ og tileinkað sér þann ósið að létta ósjálfrátt á sér um leið og þörfin kemur.
Heilbrigðari ristill og færri sýkingar
Að lokum er það ristillinn. Á bilinu 18–30 mánaða eru börn oft samvinnuþýðari og hafa ekki enn tileinkað sér að „halda í sér“ (stool withholding) jafn markvisst og eldri börn.
Eftir 3ja ára aldur verður hægðahald mun algengara vandamál. Á þeim aldri hafa börn öðlast meiri þroska og áttað sig á því að þau hafa fulla stjórn á líkama sínum. Þau uppgötva að þau geta notað þessa líkamsstarfsemi til að stjórna aðstæðum eða sem tæki í valdabaráttu við foreldra.
Hægðatregða er ein helsta orsök þess að börn missa þvag, þar sem fullur ristill þrýstir á þvagblöðruna og truflar starfsemi hennar. Að ná góðri losun og venjum áður en barnið fer í mótþróa og stjórnsemi er því lykilatriði fyrir heilsu beggja kerfa.
Einnig hafa rannsóknir (Bakker o.fl., 2002) sýnt að seinkun á koppaþjálfun tengist aukinni tíðni þvagfærasýkinga. Að losna við bleiuna leyfir húðinni að anda og minnkar bakteríuvöxt.
Niðurstaða: Nýttu gluggann
Að byrja koppaþjálfun á bilinu 18–30 mánaða snýst ekki um að pressa á barnið eða skapa streitu. Þvert á móti snýst það um að vinna með líffræðilegum þroska barnsins.
Með því að nýta þennan glugga:
- Verndar þú blöðruna og minnkar líkur á sýkingum.
- Styður þú við betri svefn og minnkar líkur á næturvætu.
- Grípur þú tækifærið þegar barnið er forvitið og vill læra, áður en mótþróaskeiðið tekur yfir.
Ef þú ert með barn á þessum aldri er núna frábær tími til að byrja.
Ertu tilbúin/n að nýta gullna gluggann? Á nýja námskeiðinu mínu leiði ég þig skref fyrir skref í gegnum ferlið á jákvæðan og árangursríkan hátt, byggt á aðferðum sem styðja við heilbrigði barnsins. Sjá Koppaþjálfun á Gullna tímanum.
Heimildir:
Yang, S. S., Wang, C. C., & Chen, Y. T. (2020). Delayed in toilet training association with pediatric lower urinary tract dysfunction: A systematic review and meta-analysis. Journal of Pediatric Urology.
Barone, J. G., et al. (2009). Later toilet training is associated with urge incontinence in children. Journal of Pediatric Urology.
Chiozza, M. L., et al. (1998). An Italian epidemiological multicentre study of nocturnal enuresis. British Journal of Urology.
Bakker, E., et al. (2002). Results of a questionnaire evaluating the effects of different methods of toilet training on achieving bladder control. BJU International.

