
Koppaþjálfun getur verið bæði spennandi og krefjandi verkefni. Með réttri nálgun og viðhorfi getur þetta skref orðið jákvætt, tengjandi og árangursríkt – bæði fyrir barnið og þig sem foreldri.
En hvenær er rétt að byrja?
Hvenær eru börn tilbúin?
Flest börn eru líkamlega tilbúin í koppaþjálfun einhvern tímann á aldrinum 18 mánaða til 3 ára. Jamie, höfundur bókarinnar Oh Crap! Potty Training, leggur þó áherslu á að 20–30 mánaða sé besta tímabilið til að byrja.
🧠 Því lengur sem beðið er, því meiri líkur eru á hindrunum eins og hægðatregðu og valdabaráttu.
Eftir þriggja ára aldur fara börn oft að gera sér betur grein fyrir eigin vilja og læra að beita honum markvisst. Þá aukast einnig líkur á því að þau vilji ráða ferðinni – jafnvel með því að hafna koppnum.
Börn á þessum aldri hafa líka meiri getu til að halda í sér og geta ómeðvitað (eða vísvitandi) notað það sem hluta af mótstöðu eða til að viðhalda stjórn í aðstæðum.Ég hvet þig því eindregið til að byrja fyrr en seinna!
Áður en koppaþjálfun hefst: Tveir mikilvægustu hlutirnir:
Áður en þú ferð af stað með koppaþjálfun er gott að staldra aðeins við og meta hvort grunnþarfir barnsins séu í jafnvægi – því það getur haft bein áhrif á árangurinn.
- Er svefninn í jafnvægi? Ef barnið sefur illa, vaknar oft eða hefur óreglulega svefnrútínu, getur það haft áhrif á getu þess til að tileinka sér nýja líkamsfærni. Svefnvana börn eiga erfiðara með að tengjast líkamanum sínum og bregðast við líkamsmerkjum. Einnig eru þau erfiðari í skapinu og þola verr breytingar.
- Er meltingin í lagi? Hægðatregða og óregla í meltingu getur haft bein áhrif á þvagblaðru – bæði með þrýstingi og truflunum á tauga- og skynkerfum. Mikilvægt er að vinna fyrst með meltinguna áður en farið er í koppaþjálfun ef barnið heldur í sér hægðum eða sýnir einkenni hægðatregðu eða er með of lausar hægðir og á við hægðalekavandamál að stríða.
Merki um að barnið gæti verið tilbúið:
- Barnið er þurrt í bleyju í lengri tíma yfir daginn
- Sýnir áhuga á baðherberginu eða klósettvenjum annarra
- Streitist á móti bleyjuskiptum
- Getur klætt sig að hluta til úr/í buxur
- Fer í ró eða felur sig þegar það kúkar
- Segir frá því eftir á að það hafi pissað eða kúkað
En hvað ef engin merki sjást?
Sum börn sýna fá eða engin skýr merki, en það útilokar ekki að þau séu tilbúin. Þú sem foreldri getur leitt ferlið áfram með einföldum skrefum, sérstaklega ef barnið er heilbrigt og ekki með nein alvarleg þroskafrávik.
Stundum eru foreldrarnir ekki tilbúnir – en barnið er það. Og það er líka í lagi. Koppaþjálfun krefst þolinmæði, tíma og eftir atvikum, þrautsegju. Byrjið þjálfunina þegar þið eruð andlega tilbúin og ekki í stressi.
Hvað getur þú gert fyrst?
Einfalt og áhrifaríkt fyrsta skref er að taka barnið með á klósettið þegar þú ferð sjálf/ur. Talaðu jákvætt um piss og kúk og leyfðu barninu jafnvel að sjá, segðu hvað þú ert að gera og sýndu að þetta er bara venjulegur hluti af daglegu lífi.
Þetta getur vakið áhuga barnsins smám saman, án þess að þurfa að formlega „byrja þjálfun.“
Minntu þig á þetta:
- Þú þarft ekki að bíða eftir fullkomna merkinu
- Þú þarft ekki að gera þetta „rétt“ í fyrstu tilraun
- Þú þarft bara að vera til staðar, fylgjast með og bregðast við með mildi og festu
Barnið þitt mun ekki muna nákvæmlega hvernig koppaþjálfunin fór –
en það mun (í líkamsminni og tengslakerfi) muna hvernig þú studdir það, hlustaðir og hélst áfram.
Viðhorf okkar í koppaþjálfun speglast oft í því hvernig við styðjum börnin okkar í öðrum þroskaskrefum:
með þolinmæði, tengslum og trú á getu þeirra.
Hvert næst?
Ef þú ert ekki viss um hvar barnið þitt er statt í ferlinu, þá er gott að skoða næstu færslu:
Fjögur stig meðvitundar í koppaþjálfun – frá „Ég hef ekki hugmynd“ til „Ég þarf að pissa“.
*Þessi færsla inniheldur affiliate hlekki. Við fáum þóknun ef þú kaupir í gegnum tenglana – þér að kostnaðarlausu.