
Slys eru hluti af lærdómsferlinu. Þau þýða ekki að eitthvað hafi mistekist – heldur að barnið sé að læra. Til þess að ná tökum á nýrri færni þarf æfingu, mistök og leiðsögn með hlýju og festu.
1. Slys eru eðlileg og óumflýjanleg
Reyndu að halda ró þinni þegar slys gerast. Þau eru ekki „bakslag“ heldur hluti af ferlinu – alveg eins og þegar barn er að læra að labba og dettur. Barnið þarf að finna að þú hafir trú á því, líka þegar það bregst við líkamlegum merkjum of seint.
„Slysin eru hluti af ferlinu, ekki merki um að þú hafir gert eitthvað vitlaust.“
2. Bregstu við með hlutlausri staðfestingu og leiðsögn
Segðu hlutlaust og einfalt:
- „Þú pissaðir í buxurnar. Við ætlum að pissa í koppinn. Förum núna saman á koppinn.“
- „Þú pissaðir á gólfið – við reynum að fara á koppinn næst."
Ekki gera mikið úr þessu eða skamma barnið – en forðastu líka að hrósa of mikið þegar það gengur vel því það getur ýtt undir kvíða hjá barninu og skapað fullkomnunaráráttu. Við viljum hjálpa barninu að byggja upp innri hvatningu og líkamsvitund, ekki þörf fyrir ytri umbun og/eða hrós.
3. Ekki flýta þér að skipta um föt
Gefðu þér stund til að bregðast við slysum – ekki hlaupa strax með barnið í fataskipti. Segðu t.d. „Við ætlum að klára að pissa/kúka, svo ætlum við að þrífa og skipta um föt." Þetta hjálpar barninu að læra að klára ferlið.
Hvert slys er tækifæri til að styðja við lærdóm og tengingu við líkamann.
4. Slysin gefa mikilvægar vísbendingar
Notaðu slysin sem upplýsingar. Þau segja þér hvar barnið er statt í meðvitundarstiganum:
- Kom slysið án merkja? Þá er barnið enn á stigi 1 (Veit ekki neitt/Clueless).
- Sagði barnið frá eftir á? Þá er það líklega á stigi 2. (Ég pissaði)
- Var barnið á leið á koppinn en missti aðeins út? Þá ertu nálægt stigi 3–4. (Ég er að pissa, ég þarf að pissa)
- Vertu vakandi fyrir mynstrum og tímasetningum – margir þurfa t.d. að kúka á sama tíma á hverjum degi. Skráðu niður ef þörf er á.
5. Þegar allt virðist frosið eða ganga á afturfótunum
Ef þú ert komin(n) með þá tilfinningu að „allt sé að fara úrskeiðis“ eða að barnið sé mótfallið þjálfuninni skyndilega – taktu skref til baka og taktu stöðuna:
- Er barnið veikt, þreytt eða undir miklu álagi?
- Er mikið um breytingar (t.d. flutningar, að byrja á leikskóla, nýtt systkini)?
- Ertu sjálf/ur stressuð/aður og þreytt/ur?
Stundum þarf að taka hlé í einn dag, sleppa þjálfun, lesa saman bók og leika – og halda svo áfram daginn eftir. Þetta er vegferð, ekki kapphlaup.
📚 Þessi grein er innblásin af bókinni Oh Crap! Potty Training eftir Jamie Glowacki, sem hefur hjálpað þúsundum fjölskyldna að sleppa bleyjunni með jákvæðum og tengjandi hætti.
👉 Í næsta hluta förum við yfir: Hvernig á að nota þjálfunarnærbuxur og þegar kemur að því að fara aftur í föt
*Þessi færsla inniheldur affiliate hlekki. Við fáum þóknun ef þú kaupir í gegnum tenglana – þér að kostnaðarlausu.