Næturþjálfun – hvernig byrjar maður?

þann Jul 01, 2025
Sofandi drengur með náttljós

Það eru ekki öll sem vakna einn morgun og hugsa: „Jæja, nú ætla ég að þjálfa barnið mitt í að hætta að pissa undir á nóttunni!“ En stundum kemur að þeim tímapunkti þar sem maður hugsar: „Nú er komið nóg af yfirfullum bleyjum, blautum náttfötum, rúmfataskiptum um miðja nótt“ og þeirri tilfinningu að þetta muni aldrei breytast.

Góðu fréttirnar eru: Það er hægt að þjálfa blöðruna á nóttunni. Þetta er færni eins og hver önnur, og þú getur hjálpað barninu að ná tökum á henni.

Næturvæta er ekki það sama og dagvæta

Flest börn ná tökum á daglegri þvagstjórn með samvinnu, tengslum og þjálfun. En næturvæta er annars eðlis – þar koma við sögu:

  • Svefnstig
  • Hormón (ADH)
  • Taugaþroski
  • Og... venjur

Vitrir menn hafa sagt að það sé klikkun að gera sama hlutinn aftur og aftur og búast við breyttum niðurstöðum. Það á fullkomlega við næturvætu, þú þarft að gera breytingar ef eitthvað á að breytast sérstaklega eftir að barnið verður 4. ára. Þess vegna skiptir máli að bjóða litlum líkömum sem eru að læra nýja færni upp á nýtt umhverfi og nýja nálgun.

🛠️ Hvað þarf að hafa til taks?

  • Vatnshelt lak / undirbreiðslu x2. Það er ákveðið hax að búa um tvö sett af pissulökum og lökum. Ef annað blotnar þá dugar að taka eitt sett af og þá er annað hreint undir - sparar tíma og umstang á nóttunni!
  • Blautpoka eða plastkörfu fyrir blaut föt og rúmföt
  • Auka náttföt og nærföt – hafa þau við höndina
  • Lítið klósett / kopp í svefnherbergi (ef barnið vill frekar pissa nálægt en fara á bað)
  • Lýsing: Ljós sem barnið ræður við sjálft – og helst daufara ljósið en það sem fær svefninn til að hverfa
  • Handklæði eða auka teppi til að nota ef barnið vill ekki fara úr rúminu en þarf samt að liggja þurrt

✨ Aðferðin í einföldum skrefum

👖 Byrjaðu án nærbuxna

Jamie Glowacki mælir með því að leyfa barninu að sofa nakið að neðan í upphafi næturþjálfunar. Þegar ekkert er til staðar sem „tekur á móti pissinu“, fær líkaminn skýrari skilaboð – og hjálpar barninu að verða meðvitaðra um þvaglátin. Þetta eykur líkurnar á því að heilinn bregðist við þegar þvagblaðran fyllist og barnið vaknar áður en það pissar.

💤 Tímasetning draumapissa (e. dream pee)

Ef barnið fer að sofa kl. 19:00:

  • Bjóða draumapiss kl. 22:00
  • Síðara draumapiss kl. 02:00

Ef barnið fer að sofa kl. 20:00:

  • Draumapiss kl. 23:00
  • Síðara draumapiss kl. 03:00

Ef barnið er einnig að pissa á sig undir morgun, gæti þurft að fylgjast með því sérstaklega og hjálpa því að fara á koppinn áður en það vaknar alveg.

Langbest er að barnið geti farið sjálft – það raskar svefni barnsins og foreldranna minna og styður við sjálfstæði barnsins.

Til að styðja við barnið í næturþjálfun:

  • Hafðu kopp við rúmið og dauft náttljós í herberginu.

Sumir kjósa að nota pissukrukku með loki, sem Jamie Glowacki mælir með (ef foreldrar treysta sér til þess).

 

Ef ætlunin er að barnið fari sjálft á klósettið:

  • Tryggðu að svefnumhverfið bjóði upp á það.
  • Hafðu náttljós á ganginum og inn á baði.
  • Settu klósettsetu ef barnið þarf þess.

🛏️ Um svefnumhverfi og rúm

  • Það er mjög erfitt að næturþjálfa barn sem sefur í rimlarúmi.
  • Fyrir börn yngri en 3,5 ára er mælt með Montessori gólfrúmi eða opnu rúmi sem þau komast auðveldlega í og úr.
  • Um fjögurra ára aldur ættu flest börn að geta farið í og úr rúmi sínu sjálf – best er að hafa eins litla fyrirstöðu og mögulegt er.
  • Taktu bleyjuna alveg af. Ekki hálfþjálfa – þá lærir líkaminn ekki neitt. Nú erum við að gefa líkamanum nýja reynslu.
  • Veitið öryggi og ró. Barnið á að vita að slysin eru ekki "mistök,” heldur hluti af ferlinu.
  • Róleg kvöldrútína. Mikilvægt að minnka drykkju 1–2 tímum fyrir svefn, en ekki banna vatn ef barnið er þyrst. Gott er að reyna að haga því þannig að barnið drekki jafnt yfir daginn eða mest á morgana og minnki drykkjuna eftirmiðdaginn og fram á kvöld.
  • Létt „dream pee” Þegar þú ferð að sofa, getur þú – án þess að vekja barnið alveg – hvíslað: „Förum aðeins að pissa.“ Sum börn pissa nær samstundis, önnur þurfa að sitja í smá stund áður en pissið kemur. Gott er að kveikja á vatnskrana – rennandi vatn sendir oft skilaboð til heilans um að nú sé tími til að pissa.
  • Engin skömm. Engin spenna. Slys eru ekki afturför. Þau eru bara hluti af því að líkaminn sé að læra.
  • Hvetjandi og virðingarrík viðbrögð: Jamie Glowacki bendir á að viðbrögðin við slysum skipti miklu máli – ekki bara að vera róleg, heldur líka að spegla raunveruleikann.

Ekki segja „allt í lagi“ í þeirri merkingu að slysin séu bara eitthvað sem skiptir engu máli  – þá getur barnið slakað of mikið á og vanist þeim (🙋♀️ ég lenti sjálf í þessu). Í staðinn má segja eitthvað eins og:

„Æ, þú pissaðir í rúmið. Nú er allt blautt. Förum að þrífa þig, skiptum á rúminu og förum í hrein náttföt. Við prófum aftur næst.“ Með þessu viðurkennirðu slysið án skammar – og hvetur barnið áfram með yfirvegun og mýkt. Forðastu að segja að barnið hafi „gleymt sér“ (ýtir undir vantrú á eigin getu) eða að það sé „of stórt“ (ýtir undir skömm) til að pissa undir. Líkami og heili þurfa tíma til að læra þessa færni. 

💛 Þetta snýst ekki um að „ná tökum” á barninu

Næturþjálfun snýst ekki um að pressa á barnið. Hún snýst um að bjóða líkama þess tækifæri á að æfa sig, á meðan fylgjumst við með, speglum, styðjum og hjálpum eins og þarf.

Það er ótrúlegt að sjá hvað gerist þegar barnið fer að bregðast við í miðju pissi eða rétt á undan – vaknar og segir sjálft: „Ég þarf að pissa,“ rétt áður en það pissar. Þetta getur komið eftir nokkra daga eða viku, hjá öðrum eftir lengri tíma. En barnið þarf rými, stuðning og öruggt umhverfi til að þetta takist.

Mundu: þetta snýst ekki um að stjórna barninu, heldur að styðja líkama þess í að læra eitthvað nýtt. Með tíma, ró og stuðningi mun heilinn smám saman tengja saman líkamsmerki og viðbrögð - með góðum tilfinningum.

Skildu eftir athugasemd