Þú byrjar – ekki barnið: Fyrstu skrefin í koppaþjálfun

þann Jun 12, 2024

Foreldri leiðir barn í fyrstu skrefum koppaþjálfunar með brosi og hlýju

Uppfært: í júní 2025

Þú ert líklega að lesa þetta blogg því þú ert að huga að því að koppa eða klósettþjálfa barnið þitt. Þetta er krefjandi, mikilvægt og líka skemmtilegt verkefni – og við viljum veita þér allar upplýsingar og möguleg bjargráð sem gætu hjálpað ykkur í ferlinu! Fáðu þér nú einn kaffibolla og sökktu þér í þetta verkefni með okkur. Við erum með þér í þessu.

Við mælum eindregið með bókinni Oh Crap! Potty Training áður en þú hefst handa með þjálfunina. Hún er grunnurinn að öllu sem við byggjum á – skýr, hvetjandi og full af góðum ráðum sem auðvelt er að tileinka sér strax. Ef þú ert meira fyrir að hlusta þá gætirðu einnig nálgast hana á Audible eða Storytel.

Byrjum á því mikilvægasta: „Er barnið tilbúið?“

Koppaþjálfun snýst ekki um að bíða eftir því að barnið „verði tilbúið“. Sú hugmynd er mýta sem veldur því að koppaþjálfun dregst á langinn og skapar oft stærri seinnitímavandamál, og stóru bleyjufyrirtækin græða á tá og fingri á meðan. Við ættum frekar að spyrja okkur: Er barnið fært (e. capable)?

Flest börn eru fær um að ná þessu milli 20 og 30 mánaða aldurs ef þau fá rétta leiðsögn og stuðning. Það er foreldrið sem ákveður hvenær þjálfunin byrjar – ekki leikskólinn, ekki amma, ekki einu sinni barnið sjálft.

“You, the parent, are the one who decides when potty training starts. Not your daycare, not your mom, not even your kid.”
— Jamie Glowacki, Oh Crap! Potty Training

Það er miklu áhrifaríkara að horfa á færni barnsins – og að foreldrið spyrji sig hvort það sjálft sé tilbúið. Þegar þú hefur tíma, ró og einbeitingu til að leiða ferlið, eru líkurnar á árangri miklu meiri. Ef þú ert stressuð/stressaður, með margt á þinni könnu eða ef mikið er að gerast á heimilinu eða í lífinu, getur verið erfitt að leiða ferlið með ró og festu.

Mundu að öll börn eru misjöfn...

...og það er hægt að kenna börnum á kopp á ýmsan hátt.

“Potty training is not about perfection. It’s about connection, consistency, and forward momentum – even when it’s messy.” — Jamie Glowacki

Skref 1: Undirbúningur – þú byrjar bara!

Merki sem geta sýnt að barnið sé tilbúið fyrir þjálfun:

  • Felur sig til að pissa eða kúka (mjög skýrt merki, byrjaðu strax að þjálfa)
  • Bleyjan helst þurr í 2+ klukkustundir
  • Þurr bleyja eftir lúr
  • Óþægindi við blauta bleyju
  • Skilur einfaldar setningar og leiðbeiningar
  • Getur dregið niður og togað upp buxur
  • Getur setið kyrrt í 2–5 mínútur

En þó barnið sýni ekki öll þessi merki, þá má byrja. Mikilvægast er að þú sért tilbúin(n) að leiða barnið í gegnum þetta ferli. **

Við mælum með því að barnið fylgist með þér á klósettinu – það lærir af því. Talaðu opinskátt um klósettferðir, piss og kúk á jákvæðu nótum. Útskýrðu að bráðum sé komið að því að læra nýja færni, eins og stóru krakkarnir.

Skref 2: Hvað þarf?

  • Kopp (mjög góður kostur fyrir lítil börn, þau geta verið sjálfbjarga og fundið öryggi með fæturna á gólfinu)
  • Klósettseta með kolli ef þið viljið skipta á milli
  • Þjálfunarnærbuxur (ekki of svipaðar bleyjum a.m.k. ekki í byrjun koppaþjálfunar)
  • Vatnsheldur blautpoki með tveimur hólfum (fyrir hreinar og blautar flíkur)
  • Þolinmæði, jafnvægi og jákvætt viðmót

Við mælum sérstaklega með að byrja á kopp ef barnið er lítið. Koppurinn gefur barninu sjálfstæði – það getur komist sjálft á hann, setið með fætur á gólfi og jafnvel tæmt koppinn sjálft. Þetta styrkir bæði líkamsvitund og sjálfstraust. Ef þið viljið nota klósettið, gæti þurft setu og koll til að styðja við líkamsstöðu og jafnvægi.

Í næsta hluta fjöllum við um: Fyrstu skrefin í koppaþjálfun – hvernig byrjum við?

*Þessi færsla inniheldur Amazon affiliate-tengil. Við fáum smá þóknun ef þú kaupir í gegnum tengilinn – án aukakostnaðar fyrir þig. Takk fyrir stuðninginn 💛*

Skildu eftir athugasemd