Fyrstu skrefin í koppaþjálfun – hvernig byrjum við?

þann Jun 19, 2025
Lítið barn, bert að neðan á kopp

Þegar þú hefur tekið ákvörðunina um að hefja koppa- eða klósettþjálfun er gott að fara af stað með skýra og einfalda uppsetningu. Hér förum við yfir fyrstu dagana og hvernig þú getur skapað umhverfi sem styður við lærdóm barnsins – með tengsl, festu og ró að leiðarljósi.

1. Taktu dagana frá og gefðu þér tíma

Við mælum með að taka 4–7 daga frá þar sem fókusinn er á koppaþjálfun. Lágmark ættu að vera þrír heilir dagar þar sem barnið er bert að neðan og í rólegu, öruggu umhverfi. Sum (og mjög fá) börn ná tökum á þessu á einum degi – önnur þurfa heila viku. Því lengri tíma sem þið gefið ykkur, því betra – því tímapressa eykur álag og skapar streitu hjá foreldrum sem barni, og er líklega einn fjandsamlegasti óvinur koppaþjálfunar. Við gerum ekki kröfur um að börnin okkar læri að labba á einum degi. Sýndu þolinmæði, ást og umhyggju gagnvart barninu á þessum stóru tímamótum og mundu að pissa og kúka í bleyju er það eina sem það þekkir og hefur gert frá fæðingu.

2. Droppið bleyjunni

Það fyrsta sem þarf að gera er að sleppa bleyjunni. Þetta getur verið stórt skref fyrir foreldra – en það er lykilatriði í að virkja líkamsvitund barnsins og hjálpa því að tengja þörf við viðbragð. 

Þegar bleyjan fer:

  • Skynjar barnið betur þegar það er að pissa eða kúka
  • Sér hvað kemur úr líkamanum
  • Lærir að bregðast við líkamsmerkjum
  • Þú sérð líka betur hvað er að gerast – og getur stutt barnið á réttum tíma

Koppaþjálfun snýst ekki bara um að hætta með bleyjur – heldur um að gefa barninu stjórn og traust til að hlusta á eigin líkama.

Þó þetta sé stórt skref, er ekki þörf á að gera mikið úr því við barnið. Forðist að tala um þetta sem stórkostlega breytingu eða gera mikið úr „kveðjustund við bleyjuna“. Því það getur bara skapað óþarfa kvíða hjá barninu. Barnið er einfaldlega að fara læra nýja færni, alveg eins og að læra labba eða hjóla – og fær í leiðinni dýrmæta nærveru og samveru með foreldri sínu. Taktu þetta sem tengslatækifæri og gæðastund, þó það fylgi því vinna – hún margborgar sig. Hugarfarið skiptir öllu máli 💛 

⚠️ Mikilvægt: Þegar þú hefur sleppt bleyjunni, settu hana ekki aftur á yfir daginn – jafnvel þó dagurinn gangi brösuglega eða barnið verði mótfallið því að fara á koppinn. Ef þú „gefur eftir“ og setur barnið aftur í bleyju, getur barnið lært að bleyjan sé í boði þegar eitthvað verður erfitt. Það sendir óskýr skilaboð og dregur úr festu í ferlinu. Það getur líka grafið undan trú barnsins á eigin líkama – barnið fer að treysta minna á eigin getu og líkamsvitund og meira á bleyjuna. Með tímanum getur það jafnvel skapað tilfinningalega tengingu við bleyjuna, sem getur komið í bakið á ykkur seinna í ferlinu. 

Þetta á þó ekki við um bleyju í daglúr eða á nóttunni, nema þú ætlar að næturþjálfa samhliða.

3. Rétt fataval og búnaður skiptir máli

Ef þú vilt hafa eitthvað á barninu, veldu víðar boxers eða stuttbuxur. Við mælum samt með að byrja á því að hafa barnið bert að neðan og svo færa ykkur yfir í víðar boxers eða stuttbuxur á næsta stigi.

Ekki byrja á þjálfunarnærbuxum strax – þær eiga að grípa slys en ekki virka eins og bleyja.

Hvað þarftu?

  • Kopp – ýtir undir sjálfstæði og styður við rétta líkamsstöðu
  • Klósettsetu og koll – ef þið viljið nota klósettið (líka hentugt á ferðalögum)
  • Blautpoka með tveimur hólfum – fyrir aukaföt og slys
  • Nærföt og buxur sem barnið getur auðveldlega dregið niður sjálft
  • Þolinmæði og jákvætt hugarfar – kannski það mikilvægasta af öllu 💛

4. Gríptu augnablikið með ró og festu

Foreldrið leiðir ferlið, en horfir líka eftir merkjum. Ef þú sérð að barnið er á iði, fer út í horn eða heldur í nárann – bregstu strax við og segðu með ró og festu:

„Ég sé að þú þarft að pissa. Förum á koppinn.“

Ekki spyrja „Viltu fara?“ – því svarið er oftast „nei.“ Þú stýrir, með hlýju. Þetta er ekki stjórnun heldur leiðsögn 💛

5. Meðvitundarstigin fjögur (skv. Jamie Glowacki)

Til að skilja hvar barnið þitt er statt í ferlinu, er gott að þekkja þessi fjögur stig:

  1. Veit ekki neitt (Clueless) – Barnið er alveg ómeðvitað og pissar/kúkar án þess að pæla í því.
  2. Ég pissaði – Barnið áttar sig eftir á og þú getur orðað það: „Þú pissaðir. Pissið á að fara í koppinn, förum á koppinn næst“
  3. Ég er að pissa – Barnið getur sagt frá á meðan það gerist og þú ferð með það á koppinn til að styrkja tenginguna.
  4. Ég þarf að pissa – Barnið nær að segja frá áður en það pissar og þú segir „Nú förum við á koppinn" og fylgir því á koppinn með leiðsögn.

Flest börn byrja á stigi 1–2 og og vinna sig svo upp. Ekki flýta ferlinu – heldur fylgist vel með og styðjið við hvert stig. Færið ykkur á næsta stig þegar ykkur finnst barnið vera öruggt á því stigi sem það er á.

👉 Í næsta hluta fjöllum við um: Hvernig á að bregðast við slysum – og hvað þú getur gert þegar hlutirnir ganga ekki alveg eftir áætlun.

Þessi grein er innblásin af bókinni Oh Crap! Potty Training eftir Jamie Glowacki, sem hefur hjálpað þúsundum fjölskyldna að sleppa bleyjunni með jákvæðum og tengjandi hætti. Smelltu hér til að skoða bókina með affiliate-hlekknum okkar. Þú gætir einnig hlustað á bókina inn á Audible eða Storytel.

Skildu eftir athugasemd