Þegar næturþjálfun gengur ekki – hvað þá?

þann Jun 30, 2025
Þreytt foreldri - næturþjálfun við næturvætu

Þú varst tilbúin/n. Barnið var tilbúið. Þið byrjuðuð af krafti. En svo liðu dagarnir, vikurnar jafnvel – og ekkert breyttist. Eða kannski gekk þetta aðeins í byrjun en svo byrjaði barnið aftur að pissa undir. Ef þú ert hér, þá ertu líklega farin/n að velta því fyrir þér: Er ég að gera eitthvað vitlaust? Er barnið ekki tilbúið?

Góðu fréttirnar eru: Þú ert ekki að klúðra þessu og það er ekkert að barninu þínu. Næturþjálfun er ekki alltaf línulaga – og þó að ferlið staðni eða miði hægt áfram, þá er það ekki óeðlilegt.

🌀 Hvað getur valdið því að þetta gengur ekki?

Það eru margar ástæður fyrir því að næturþjálfun getur tekið tíma – eða virðist alls ekki virka:

  • Þvagblaðran hefur fest sig í vanamynstri: Barnið pissar alltaf á sama tíma og heilinn vaknar ekki við merkið.
  • Sum börn sofa mjög fast – þau vakna einfaldlega ekki þegar líkaminn gefur merki.
  • Barnið er svefnvana: Of lítill eða óreglulegur svefn getur dregið úr getu heilans til að bregðast við líkamsmerkjum.
  • Meltingin er ójafnvægi: Ef barn er með hægðatregðu eða heldur oft í sér, getur það valdið þrýstingi á blöðruna og truflað þvagblöðrustjórn.
  • Álag í umhverfinu: Miklar breytingar (flutningar, að byrja á nýjum leikskóla, nýtt systkini) hafa áhrif á svefn og líkamsmeðvitund.
  • Of mikill þrýstingur eða væntingar: Ef barnið finnur fyrir óbeinni pressu eða miklum væntingum frá foreldri getur það dregið sig í hlé, orðið óöruggt eða stimplað sig út úr ferlinu – ekki af því að það nennir þessu ekki, heldur vegna vantrausts og spennu í tengslum milli sín og foreldra.

🔄 Hvað get ég gert?

Ef þú hefur þegar byrjað næturþjálfun og ert komin/n í „þetta gengur ekki“ tímabil, prófaðu þetta:

  • Skráðu niður næturmynstrið í viku: Hvenær pissar barnið? Hversu djúpur er svefninn? Eru einhverjir þættir sem skerða ró? 
  • Aðlagaðu draumapisstíma: Ef barnið pissar alltaf kl. 03:30 en þú ert að bjóða draumapiss kl. 02:00, þá þarf að breyta til.
  • Endurstilltu væntingar: Það er í góðu lagi að taka örlítið hlé og prófa aftur eftir nokkra daga með aðeins breyttu umhverfi. 
  • Farðu yfir meltinguna: Er barnið með harðlífi og hægðastíflur? Heldur í sér? Þá þarf að leysa það fyrst – áður en næturþjálfun heldur áfram.
  • Styðjandi umhverfi: Hentar rúmið? Er koppur aðgengilegur? Er ljósið róandi? Er barnið öruggt?
  • Ekki fara aftur í bleyju ef barnið er 3,5 ára eða eldra og þið hafið byrjað ferlið. Jamie Glowacki leggur áherslu á að slíkt rugli líkamsvitund barnsins og sendi líkamanum þau skilaboð að hann þurfi ekki að læra neitt nýtt. Þó þú takir hlé eða hægir á, er betra að nota aðra lausn eins og undirbreiðslu fremur en að fara aftur í bleyju.
  • Íhuga notkun á næturþjálfa: Þeir hafa gefið mjög góða raun eftir 4 ára aldur. Við leigjum fyrirferðalitla og þráðlausa næturþjálfa sem tengjast við app – tækið pípir um leið og barnið pissar undir og vekur einnig foreldra með með því að senda vekjara í app í símanum. Næturþjálfi er einnig mjög sniðugur til að kortleggja hvenær barnið er að pissa yfir nóttina, við gerðum það sjálf þegar við byrjuðum að næturþjálfa.
  • Skipta yfir í taubleyju eða þjálfunarnærbuxur: Ef barnið hefur verið í einnota bleyju getur verið gagnlegt að skipta yfir í fyrirferðarmikla taubleyju, eins og formmótaða taubleyju (fitted) með skel yfir. Flestum eldri börnum þykja þessar bleyjur óþægilegar og vilja losna úr þeim sem allra fyrst – sem getur hvatt þau áfram. Fyrir börn sem eru lengra komin má nota þjálfunarnærbuxur, svo framarlega sem þær eru ekki með stay-dry innra lagi. Mikilvægt er að barnið finni fyrir vætunni.

🧘♀️ Hvenær á ég að halda áfram – og hvenær á að bíða?

Haltu áfram ef:

  • Barnið er í jafnvægi (melting, svefn, álag)
  • Barnið sýnir einhver merki um meðvitund eða vilja
  • Það eru smávægilegar framfarir, jafnvel þó þær séu óreglulegar

Bíddu eða breyttu um nálgun ef:

  • Barnið virðist algjörlega ómeðvitað og tilfinningalega óöruggt
  • Það eru veikindi, svefnerfiðleikar eða mikil aðlögun í gangi
  • Þú finnur sjálf/ur að þér líður eins og þú sért að „berjast“ í stað þess að leiða
  • Að taka hlé er ekki það sama og að gefast upp. Það er hluti af því að hlusta á barnið – og á sjálfan sig.

💛 Og svo að lokum…

  • Þú ert ekki að gera þetta vitlaust og það er ekkert að barninu þínu. Þetta er ferli sem stundum tekur daga – stundum vikur – og stundum mánuði.
  • Það sem skiptir máli er að þú styður barnið þitt með ró og hlýju, án skammar og án of mikillar pressu. Það lærir þetta á endanum. Það þarf bara að fá rými, tíma og öruggt svefnumhverfi þar sem líkaminn fær tækifæri til að styrkja smám saman tenginguna milli þvagblöðrunnar og heilans, sem gefur líkamanum merki um að vakna og pissa.

Viltu vita meira? 

Í næstu færslu rýnum við nánar í það hvað er að gerast í líkamanum á nóttunni – og hvernig hormón, svefnstig og þvagblaðra vinna saman.

Skildu eftir athugasemd