Nýjustu fréttir

Apríl kveður Cocobutts

Apríl kveður Cocobutts

Við kynnum með trega þær fréttir að Apríl hefur stigið til hliðar í Cocobutts og Elín hefur tekið alfarið við fyrirtækinu. Þetta eru mikil tímamót í lífum okkar beggja sem og í sögu Cocobutts. Flestir taubleyjuforeldrar á Íslandi kannast við Apríl, því hún hefur verið rödd Cocobutts og mótað ímynd fyrirtækisins frá upphafi. Apríl stofnaði Cocobutts með einn sérstakan tilgang í huga: að veita foreldrum heilnæmari og umhverfisvænni valkosti fyrir börnin sín. Hugmyndin að Cocobutts kviknaði hjá henni þegar hún var nýbökuð móðir með tæplega sjö mánaða gamla dóttur sína, Lúnu. Hún vildi hafa hana í taubleyjum, því að hennar mati var það besti mögulegi kosturinn fyrir dóttur hennar. En henni fannst erfitt að leita sér upplýsinga um taubleyjur á íslensku og hún upplifði sig eina á báti, þar sem hún þekkti enga sem var í taubleyjum á þeim tíma og henni þótti úrvalið á Íslandi bæði lítið og dýrt. Þá kvikvaði hugmyndin að Cocobutts: netverslun með taubleyjur á öllum verðskala og fræðslusetur fyrir foreldra sem eru að feta sín fyrstu skref í taui. Eftir hálft ár í rekstri fékk Apríl Elínu æskuvinkonu sína og nýbakaða móður til liðs við sig, sem deildi sömu ástríðu fyrir fjölnota vörum og umhverfisvernd. Saman bjuggu þær til það sterka Cocobutts samfélag sem er til í dag, þar sem foreldrar geta fengið fræðslu, stuðning og aðgang að fjölbreyttu úrvali af taubleyjum á öllum verðskala. Með tímanum hefur vöruúrvalið þróast og stækkað, og eins og staðan er í dag þá býður Cocobutts einnig upp á frábært úrval þjálfunarnærbuxna fyrir koppaþjálfun ásamt fjölnota tíða- og lekavörum fyrir konur og nýbakaðar mæður. Hugsjónin okkar beggja var alltaf sú að Cocobutts væri ekki bara verslun – Cocobutts væri einnig fræðslusetur og samfélag þar sem þið gætuð treyst því að finna heilnæmar og umhverfisvænar lausnir fyrir bæði ykkur og börnin ykkar, ásamt allri þeirri fræðslu og stuðningi sem þarf til að ná árangri.Á næstu mánuðum mun Cocobutts taka nokkrum breytingum. Við munum kveðja einhver vörumerki og bjóða önnur velkomin, og við munum bæta við nýjum vöruflokkum og minnka eða hætta með einhverja aðra... en hugsjónin verður alltaf sú sama - að bjóða upp á heilnæmar og umhverfisvænar lausnir fyrir fjölskylduna og heimilið.   ...   Elsku Apríl, þú fæddir Cocobutts og við höfum hugsað um þetta litla barn okkar saman í þessi ár. Ég lofa að hugsa vel um það og gera allt sem í mínu valdi stendur til þess að hjálpa því að vaxa og dafna! Takk elsku vinkona fyrir allt ♡ Þín vinkona,Elín