Svona djúphreinsar þú þvottavélina þína

þann Sep 15, 2022

Með tímanum safnast fyrir ryk, sandur og þvottaefni í þvottavélinni. Því er góð þumalputtaregla að djúphreinsa þvottavélina endrum og eins. Við mælum með að það sé gert á 1-2ja mánaða fresti og sérstaklega þegar slæm lykt gerir vart við sig í taubleyjunum eða útbrot fara að birtast á barninu. 

Svona djúphreinsar þú þvottavélina í fjórum einföldum skrefum

1. Þrífðu tomluna með tusku auk þess að þurrka úr gúmmíhringnum framan á vélinni og inn á milli. Gott er að nota blöndu af ediki og sítrónusafa blandað í vatn til að drepa bakteríur og fá betri lykt. Þú getur nýtt tækifærið og þurrkað af vélinni líka ;)

2. Losaðu þvottaefnisboxið og skolaðu það vel og settu aftur á sinn stað. 

3. Tæmdu síuna og ekki gleyma að loka kyrfilega fyrir hana aftur þegar hún er orðin tóm.

4. Til eru ýmis húsráð um hvernig best sé að þvo vélina. Eitt er að þrífa hana tóma á 90 gráðum í minnst tvo tíma. Sömuleiðis er hægt að setja edik, sítrónusafa eða blöndu af hvorutveggja í duftboxið. Þessi blanda er afar áhrifarík þar sem bæði efnin eru gríðarlega öflug til djúphreinsunar. Vélin mun ilma af sítrónusafanum eftir hreinsunina. Leyfðu vélinni að að standa opinni yfir nótt svo hún fái tækifæri til að viðra sig.

Sjá einnig:

Einföld þvottarútína til viðmiðunar fyrir taubleyjur

Svona djúphreinsar þú taubleyjurnar þínar

Skildu eftir athugasemd